Thursday, July 15, 2010

Um heimildamyndina Heitar Laugar á Íslandi



Heimildarmyndin Heitar Laugar á Íslandi


Myndin sýnir tvær íslenskar stúlkur ferðast á puttanum um Suðurland, Austurland og hálendið, með það markmið að heimsækja sem flestar laugar úr bókinni Heitar Laugar á Íslandi, eftir Jón G. Snæland og Þóru Sigurbjörnsdóttur.

Myndin er gerð með það að markmiði að hvetja fólk til að nýta sér hagkvæman og umhverfisvænan ferðamáta sem við kjósum að kalla “puttaferðalag”.

Umhverfisvænn ferðamáti

Myndinni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um þennan umhverfisvæna ferðamáta. Því fleiri sem deila bíl, því minni mengun.

Hagkvæmur ferðamáti

Ferðalögum út á land getur fylgt mikill kostnaður og umstang varðandi skipulagningu þeirra og ákvörðun ferðamáta. Borgarbúar velta sjaldan “puttaferðalögum” fyrir sér sem einmitt einum valkosti við slík ferðalög. Ætlunin með myndinni er því einnig að sýna fram á hversu hagkvæmt er að ferðast um landið okkar þar sem því fleiri sem dreifa bensínkostnaði því ódýrari verður ferðin.

Allt er hægt! ;)

Myndin mun einnig sýna að það er alls ekki ómögulegt að ferðast á puttanum til staða sem hafa að geyma ósviknar íslenskar náttúruperlur og almennt er talið erfitt að ná til, svo sem heitar laugar á Íslandi.

Þannig sameina “puttaferðalög” umhverfisvænan, hagkvæman og áhrifaríkan ferðamáta!


Aðferðir og leiðir við að ná ofangreindum markmiðum eru nýjar, þar sem verkefnið mun leggja ríka áherslu á samstarf milli hinna ólíku greina kvikmyndalistar, bókmennta og ferðamála.

Bókin Heitar Laugar á Íslandi varð innblástur okkar að gerð þessarar heimildamyndar en hún kom út núna fyrir jólin 2009 og er þetta í fyrsta skipti sem gefin er út bók af þessu tagi, með svo greinargóðri lýsingu á þeim náttúruundrum sem íslenskar laugar eru.

Myndin er unnin í samstarfi við samferda.net. Markmið samferda.net er að hvetja Íslendinga til að ferðast á umhverfisvænni máta, eða með því að annaðhvort þiggja far á áfangastað, eða að bjóða öðrum að fá far hjá sér. Þesskonar síður tíðkast víða í Evrópu og er vefurinn unnin með tilliti til svipaðra síðna í Þýskalandi. Að auki mun verkefnið vera unnið í samstarfi við útgefendur bókarinnar, Skruddu ehf.

Verkefnið mun taka 6 mánuði en ferðin sjálf mun taka um það bil 2 vikur eða frá 16. – 26. júlí 2010.

Á ferðalaginu munum við taka viðtöl við fólkið sem við fáum far hjá og spyrja hvort það sé vant að taka puttaferðalanga uppí og hvort það ferðist einhvern tímann sjálft á puttanum. Við tökum einnig viðtöl við fólk sem við hittum í laugunum, spyrjum hvernig það hafi ferðast þangað og hvert þeirra viðhorf til slíkra ferðalaga sé. Farið verður á tvær tónlistarhátíðir þar sem við tökum viðtöl við gesti hátíðanna, spyrjum með hvaða ferðamáta þeir hafi komið og hvert þeirra viðhorf til puttaferðalaga sé.



No comments:

Post a Comment