Þennan morguninn vöknuðum við í grillandi sól og hita á Mývatni, með tilheyrandi þungu tjaldlofti. Við gerðum tilraun til að sofna aftur með tjaldið galopið, en allt kom fyrir ekki. Sólin kallaði og tímabært að fara að skoða fleiri heitar laugar. Fyrst var þó nauðsynlegt að rölta upp í Samkaup og pulla sig upp! Eins og einum kaffibolla síðar var lagt af stað. Förinni var heitið í Stórugjá og að Grjótagjá. Laugarnar reyndust einstaklega fallegar, ásamt göngunni yfir hraunið. Vatnið í Grjótagjá var aðeins of heitt til að hægt væri að taka dýfu, en í staðinn fengu tærnar smá þvott. Þegar við vorum rétt búnar að skoða Grjótagjá komu aðvífandi tvær rútur fullar af túristum, til að skoða laugina.
Hungrið kallaði eftir alla gönguna og húkkuðum við því far niðrí Voga. Pizza og bjór í sólinni sló í gegn hjá þreyttum göngugörpum á Pizza barnum! Eftir pizzuna röltum við yfir á Fjósakaffið og skoðuðum það og húkkuðum svo aftur far uppá tjaldstæðið á Bjargi. Mývatnsdvölina enduðum við í fallegri laut á Bjargi í sól og blíðu þar sem við fengum að taka viðtal við Yamal um Öskju dvölina hans og um puttaferðalög. Í ljós kom að alla þá 18 daga sem Yamal var uppí Öskju, þá vorum við einu puttaferðalangarnir sem hann sá þar!
Eftir yndislega dvöl á Mývatni héldum við uppá veg, vongóðar um að ná strax fari til Húsavíkur. Það reyndist þó taka aðeins lengri tíma en við áttum von á, en að lokum stoppuðu fyrir okkur indæl Svissnesk hjón sem tróðu okkur inní litla smábílinn sinn. Húsavík og laugarnar þar í kring voru því aðeins handan við hornið!
Þegar við komum uppá Kaldbak, rétt fyrir utan Húsavík, beið móttökunefndin með dýrindis grill og bjór! Höfðingjarnir á Kaldbak gátu ekki hugsað sér að láta þessar indælis stúlkur sofa í tjaldi og skriðum við því þreyttar en sælar í hlýtt smáhýsi eftir að við vorum búnar að taka púlsinn á mannlífinu á fyrsta kvöldi Mærudaga.
No comments:
Post a Comment